Samráðsgátt Stakksbergs

Áhrif á heilsu

Samráði lokið
09-09-2019 23:59 - 24-09-2019 23:59

Á fyrri rekstrartíma kísilverksmiðjunnar í Helguvík komu fram margar kvartanir frá íbúum á nærliggjandi svæðum vegna lyktar og óþæginda, s.s ertingar í augum og öndunarfærum. Kvartanir komu aðallega fram þegar ofn verksmiðjunnar var rekinn á skertu álagi en vegna ýmissa vandamála sem upp komu í rekstrinum á þeim tíma voru þessi tilvik nokkuð tíð.

1. Fyrri rekstrartími og sóttvarnalæknir

Sóttvarnalæknir fylgdist grannt með þróun mála frá því fljótlega eftir að rekstur kísilverksmiðj­unnar hófst og þar til hann var stöðvaður tæpu ári síðar, í sumarlok 2017. Í minnisblaði til Umhverfisstofnunar og fréttabréfi sóttvarnarlæknis, Farsóttarfréttum, í júlí 2017 var fjallað um ástandið. Þar kom fram að íbúar sem töldu sig hafa orðið fyrir áhrifum af mengun voru hvattir til að leita til læknis til að fá mat á sínu ástandi og sóttvarnarlæknir fékk bæði formlegar og óformlegar tilkynningar frá læknum. Þó leitaði ekki nema lítill hluti þeirra sem settu fram kvartanir til Umhverfisstofnunar til lækna og því vantaði mat á einkennum hjá stórum hluta. Flestir kvörtuðu um ertingu í augum og öndunarvegi sem oft er erfitt að staðfesta við skoðun en einnig komu fram einkenni um roða og ertingu í slímhúð. Nokkrir einstaklingar með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma voru með meiri einkenni og þurftu meiri lyfjagjöf en áður. Hins vegar var ekki hægt að staðfesta alvarleg einkenni sem rekja mátti til mengunarinnar á þessum tíma.

Tekinn var saman fjöldi greininga ákveðinna öndunarfærasjúkdóma á svæðinu á þessum tíma og ekki var hægt að greina aukningu. Ekki var heldur hægt að greina aukningu í ávísunum á astmalyfjum til íbúa á svæðinu.

Í mælingum sem framkvæmdar voru á rekstrartímanum kom fram að í útblæstrinum væru anhydríð og vísbendingar um að þar kynni einnig að vera formaldehýð. Þessi efni hefðu getað valdið þeim einkennum sem kvartað var um en sóttvarnarlæknir taldi ólíklegt að þessi efni væru í það háum styrk að þau hefðu getað valdið alvarlegum heilsuspillandi áhrifum.

Umhverfisstofnun lét síðar sama sumar (2017) framkvæma mælingu á formaldehýði, brennisteinsdíoxíði og kolmónoxíði í íbúabyggð en efnanna varð þar ekki vart. Formaldehýð mældist á sama tíma við greiningarmörk mælitækis í síuhúsi verksmiðjunnar. Til stóð að framkvæmdaraðili stæði fyrir frekari mælingum á þeim tíma sem rekstur verksmiðjunnar var stöðvaður. 

2. Reynslan frá Noregi

Í Noregi er löng hefð fyrir kísiliðnaði og þar er stór hluti af evrópskri kísilframleiðslu. Tíu kísilmálmverk­smiðjur, svipaðar verksmiðjunni í Helguvík, og að auki tvær kísilkarbíðverksmiðjur eru í rekstri í Noregi og eru þær allar staðsettar við eða í næsta nágrenni við íbúabyggð. Norsku verksmiðjurnar eru allar starfræktar innan ákvæða í sínum leyfum og í nánu samstarfi við yfirvöld, sem felur í sér vöktun og árleg skil á niðurstöðum mælinga til norsku umhverfisstofnunarinnar, eins og tíðkast hér á landi. Einnig ber verksmiðjunum að láta vita eins fljótt og auðið er ef óeðlilegar aðstæður koma upp sem hafa áhrif á losun. Samkvæmt birtingum norsku umhverfisstofnunarinnar tilkynntu 5 af 12 verksmiðjum í kísiltengdum iðnaði slíka atburði á síðasta ári. Flestar tilkynningarnar voru vegna aukningar í losun á reyk, ryki eða óhreinsuðum útblæstri.

Við heimildaleit hafa ekki fundist rannsóknir sem gerðar hafa verið á heilsufari íbúa vegna nálægðar við kísilverksmiðjur en norska loftrannsóknastofnunin (NILU) stóð fyrir um þremur til fjórum áratugum síðan að þremur viðamiklum rannsóknum varðandi áhrif loftgæða á heilsu íbúa, m.a. til að undirbúa setningu viðmiðunarmarka. Tvær þessara rannsókna vörðuðu loftmengun vegna umferðar en ein þeirra einnig loftmengun frá iðnaðarsvæði með fjölbreyttum iðnaði, þó ekki kísilverksmiðju.

NILU vinnur að samantekt á gögnum um norska kísiliðnaðinn og nánar verður fjallað um niðurstöður þeirra í frummatsskýrslu.

 

3. Viðmiðunarmörk efna og efnasambanda

Efni sem losna við bruna í ljósbogaofni við kísilframleiðslu eru helst brennisteinsdíoxíð (SO2), köfnunarefnisoxíð (NOx), kolmónoxíð (CO), svifryk (PM10/2,5) og PAH-efni. Einnig eru losuð rokgjörn lífræn efnasambönd (VOC).

Viðmiðunarmörk fyrir styrk einstakra efna eru sett í reglugerðum, þar á meðal heilsuverndarmörk sem eiga að tryggja heilsu manna til lengri tíma. Þá eru ákvæði sett í starfsleyfi fyrir tiltekna atvinnustarfsemi sem heimila losun á ákveðnu magni af mengandi efnum miðað við ákveðið magn framleiðslu. Einnig eru sett ýmis önnur skilyrði fyrir starfsemi fyrirtækja í starfsleyfi, t.d. hvað varðar búnað, vinnuferla, losun og vöktun áhrifa.

3.1 Líkanreikningar á dreifingu í andrúmslofti

Niðurstöður líkanreikninga á dreifingu mengunarefna í andrúmslofti benda til að við losun um skorstein eftir síuhús við fulla framleiðslu, verði styrkur alls staðar vel undir viðmiðunarmörkum fyrir efni sem tilgreind eru í reglugerðum. Útreikningarnir benda til að við losun um rjáfur síuhúss, eins og fyrirkomulagið var í fyrri rekstri, hafi styrkur brennisteinsdíoxíðs og köfnunarefnisoxíða í einhverjum tilfellum geta farið yfir viðmiðunarmörk innan iðnaðarsvæðisins við Helguvík. Þetta var helst í næsta nágrenni verksmiðjunnar en náði þó út fyrir lóðina þar sem leyfilegt var að fara yfir mörkin samkvæmt starfsleyfi.

3.2 Vöktun á fyrri rekstrartíma

Vöktunarmælingar í loftgæðastöðvum utan norður- og suðurmarka þynningarsvæðis, sem skilgreint er í aðalskipulagi Reykjanesbæjar og Garðs (nú Suðurnesjabær), og í hesthúsahverfinu vestan Garðskagavegar sýndu styrk efna á fyrri rekstrartíma alltaf undir heilsu- og gróðurverndarmörkum. Einnig var styrkur þungmálma og B(a)P í ryki í vöktunarmælingum ávallt innan marka reglugerða.

3.3 Samanburður mælinga og útreikninga við viðmiðunarmörk

Á myndum 1 og 2 eru mældur styrkur brennisteinsdíoxíðs (SO2) og köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) frá fyrra rekstrartíma kísilverksmiðjunnar og reiknuð gildi samkvæmt loftdreifilíkani Vatnaskila fyrir endurbætta verksmiðju borin saman við tilgreind heilsuverndarmörk í reglugerð. Birt eru klukkustundargildi úr mælingum og einnig útreikningum sem eiga bæði við einn og fjóra ofna á fullu afli. Ekki er tekið tillit til annarra upptakaþátta mengunar, svo sem umferðar.


Mælingar koma úr mælistöð 1 sem kennd er við Helguvík/Hólmbergsbraut og er staðsett á milli verksmiðjunnar og næstu íbúabyggðar, eins og sjá má á mynd 3. Reiknuð gildi eiga við sömu staðsetningu.

 

4. Endurbætur

Endurbætur á kísilverksmiðjunni miða að því að bæta búnað og ferla sem ekki virkuðu sem skyldi í fyrri rekstri og leiddu í mörgum tilfellum til atvika þar sem stöðva þurfti eða draga úr framleiðslu í ljósbogaofninum. Endurbætur munu því stuðla að stöðugri og betri rekstri verksmiðjunnar.

Umhverfisstofnun hefur sett það skilyrði fyrir endurræsingu kísilverksmiðju Stakksbergs í Helguvík að uppsetning skorsteins sem getur dregið úr styrk lyktarvaldandi efna í nærliggjandi íbúabyggð verði útfærð og framkvæmd áður en endurræsing verði heimiluð. Stakksberg hefur látið frumhanna endurbætur á útblástursmannvirkjum og skorsteini. Stakksberg leitaði til Verkfræðistofunnar Vatnaskila um að reikna áhrif endurbótanna á dreifingu útblástursefna með loftdreifilíkani. Niðurstöður loftdreifilíkans sýna að endurbætur á útblástursmannvirkjum muni leiða af sér verulega lækkun á styrk efna í nágrenni verksmiðjunnar.  Hér er nánar fjallað umáhrif endurbóta á dreifingu útblásturs.
Athugasemdir
24-09-2019 16:34

Gunnar Felix Rúnarsson

Gera þarf opinbert öll efni sem verksmiðjan losar tala nú ekki um ef þarf að taka til neyðaropnana. mér hugnast það ekki að lífsgæði mín séu takmörkuð við það að geta ekki verið utandyra eða með opna glugga það var mín reynsla af fyrri tilraunum þessa fyrirtækis og hugnast það bara ekki að vera með mengandi iðnað í túnfætinum ég sjálfur átti fjandsamlegan tíma meðan þetta fyrirtæki starfaði áður og er bara ekki tilbúinn að reyna það aftur fagnaði þegar þessu var lokað. Sparið ykkur milljarða og lokið þessu endanlega þetta á ekki heima í byggð það er fullreynt Hugsið um Íbúana Aríonbanki á að horfa til þess fyrst og fremst.


23-09-2019 19:52

Ásthildur Ósk Brynjarsdóttir

1: United Silicon rak verksmiðjuna í 10 mánuði frá nóvember 2016 til september 2017. Það er nú ekki hægt að ætlast til þess að heilu fjölskyldurnar fari á læknavakt HSS og leggi þar út 3.100 krónur á mann í hvert skipti til að fá lagt á það læknamat óþægindi sem fólk upplifði. Hér reynið þið af fremsta megni að draga óþægindi íbúa í efa þegar verksmiðjan var starfandi með vísan til fréttapistils sóttvarnarlæknis. Er þetta eitthvað grín eða? Er það svona lágt planið hjá ykkur sem þið ætlið að vinna þetta á áfram í samvinnu við íbúa Reykjanesbæjar? Þið ættuð kannski að skoða að taka það inn í orsakatengslareikninginn að það hafa sennilega færri kvartað núna yfir særingum í hálsi, augnsviða eða öðrum einkennum eftir að kolabrennslan ykkar var stöðvuð í september 2017. Ég get a.m.k. staðfest fyrir mitt leyti að ég hef ekki fundið fyrir sömu óþægindum og ég fann fyrir meðan United Silicon var starfandi.

 

2: Hér er Noregi enn á ný slegið sem ryki í augu samráðsaðila. Þetta er ekkert nýtt því þegar þetta var kynnt á sínum tíma og sérstaklega Thorsil þá var kísilvinnslan kynnt sem norsk snilld og mjög umhverfisvæn. Þá var á svipuðum tíma kynnt þýsk snilld og til varð kísilverksmiðja PCC á Bakka sem nú vantar 5 milljarða líklega til að lenda ekki í rekstrarstöðvun á næstunni. Verksmiðjurnar í Noregi eru samt í svipaðri stöðu og alþjóðaflugvöllurinn á Keflavíkurflugvelli, þ.e. þær líkt og flugvöllurinn voru fyrir í þeim byggðum sem við þekkjum í dag á árinu 2019. Kísilver Stakksberg er aftur á móti í allt annarri stöðu, þ.e. því var troðið hér í kílómeters fjarlægð frá byggð og lega þess er algjörlega fráleit m.t.t. ríkjandi vindátta þar sem mengunin frá kísilveri Stakksberg mun megnið af tímanum liggja yfir íbúabyggð nyrst í Reykjanesbæ. Ég held að menn ættu bara að halda þessum kísilverum úti þar sem reynslan er til staðar og e.t.v. gæti Stakksberg skoðað fjárfestingar í kísilverum t.d. í Noregi til að vinna upp í tapið vegna United Silicon. Það er (leyfi ég mér að fullyrða) meirihluti íbúa Reykjanesbæjar fyrir því að kísilver Stakksberg fari ekki í gang aftur eftir endurbætur.

 

3: Hér setjið þið fram klukkustundargildi á So2 og No2. Allt á þetta nú að vera innan heilsuverndarmarka reglugerða sem eiga að tryggja heilsu manna til lengri tíma. Þetta sagði nú United Silicon líka en það stóðst engan veginn. Hér er nær eingöngu fjallað um framangreind tvö efni en eins og vitað er eru fjölmörg önnur eiturefni sem verksmiðjan losar og gera mætti mun ítarlegri grein fyrir þeim efnum. Eins er framsetning á klukkustundargildum ófullnægjandi þar sem íbúar eiga rétt á að sjá þetta einnig í stærra samhengi, þ.e. sólarhrings-, viku-, mánaðar- og ársgildum.

 

4: Ég velti fyrir mér hvernig þessi skorsteinn hjá ykkur eigi eftir að virka þegar vandamálið tengist væntanlega síupokum o.fl.? Reykurinn hjá United Silicon lak meðfram öllum götum á ofnhúsinu, var hleypt út um hurðir og sama sagan virðist eiga sér stað hjá PCC á Bakka. Ég er því langt frá því eins sannfærður og þið að skorsteinninn eigi eftir að taka allt eitrið og dreifa því með þeim hætti sem þið hafið haldið fram í „Áhrif endurbóta á dreifingu útblásturs“.

 

Það er ekki of seint að hætta við núna og ég hvet ykkur eindregið til þess. Reykjanesbær á ekki að verða frægastur sveitarfélaga á norðurhveli jarðar fyrir að menga mest og stefna ætti að grænni framtíð þar sem umhverfissjónarmið eru í forgrunni. Ég kýs góð lífsgæði til handa íbúum Reykjanesbæjar og komandi kynslóðum sem endurspeglast í betri lífsgæðum framyfir ófullkomnar kolabrennandi kísilverksmiðjur í kílómetra fjarlægð frá byggð. 


22-09-2019 22:17

Ragnhildur L Guðmundsdóttir

United Silicon rak verksmiðjuna í 10 mánuði frá nóvember 2016 til september 2017. Það er nú ekki hægt að ætlast til þess að heilu fjölskyldurnar fari á læknavakt HSS og leggi þar út 3.100 krónur á mann í hvert skipti til að fá lagt á það læknamat óþægindi sem fólk upplifði. Hér reynið þið af fremsta megni að draga óþægindi íbúa í efa þegar verksmiðjan var starfandi með vísan til fréttapistils sóttvarnarlæknis. Er þetta eitthvað grín eða? Er það svona lágt planið hjá ykkur sem þið ætlið að vinna þetta á áfram í samvinnu við íbúa Reykjanesbæjar? Þið ættuð kannski að skoða að taka það inn í orsakatengslareikninginn að það hafa sennilega færri kvartað núna yfir særingum í hálsi, augnsviða eða öðrum einkennum eftir að kolabrennslan ykkar var stöðvuð í september 2017. Ég get a.m.k. staðfest fyrir mitt leyti að ég hef ekki fundið fyrir sömu óþægindum og ég fann fyrir meðan United Silicon var starfandi en það var staðfest eftir myndatökur og læknisskoðun á HSS að ertingin og óþægindin sem ég fann fyrir mætti klárlega rekja til verksmiðjunnar.


22-09-2019 22:10

Andri Freyr Stefánsson

1: United Silicon rak verksmiðjuna í 10 mánuði frá nóvember 2016 til september 2017. Það er nú ekki hægt að ætlast til þess að heilu fjölskyldurnar fari á læknavakt HSS og leggi þar út 3.100 krónur á mann í hvert skipti til að fá lagt á það læknamat óþægindi sem fólk upplifði. Hér reynið þið af fremsta megni að draga óþægindi íbúa í efa þegar verksmiðjan var starfandi með vísan til fréttapistils sóttvarnarlæknis. Er þetta eitthvað grín eða? Er það svona lágt planið hjá ykkur sem þið ætlið að vinna þetta á áfram í samvinnu við íbúa Reykjanesbæjar? Þið ættuð kannski að skoða að taka það inn í orsakatengslareikninginn að það hafa sennilega færri kvartað núna yfir særingum í hálsi, augnsviða eða öðrum einkennum eftir að kolabrennslan ykkar var stöðvuð í september 2017. Ég get a.m.k. staðfest fyrir mitt leyti að ég hef ekki fundið fyrir sömu óþægindum og ég fann fyrir meðan United Silicon var starfandi.

 

2: Hér er Noregi enn á ný slegið sem ryki í augu samráðsaðila. Þetta er ekkert nýtt því þegar þetta var kynnt á sínum tíma og sérstaklega Thorsil þá var kísilvinnslan kynnt sem norsk snilld og mjög umhverfisvæn. Þá var á svipuðum tíma kynnt þýsk snilld og til varð kísilverksmiðja PCC á Bakka sem nú vantar 5 milljarða líklega til að lenda ekki í rekstrarstöðvun á næstunni. Verksmiðjurnar í Noregi eru samt í svipaðri stöðu og alþjóðaflugvöllurinn á Keflavíkurflugvelli, þ.e. þær líkt og flugvöllurinn voru fyrir í þeim byggðum sem við þekkjum í dag á árinu 2019. Kísilver Stakksberg er aftur á móti í allt annarri stöðu, þ.e. því var troðið hér í kílómeters fjarlægð frá byggð og lega þess er algjörlega fráleit m.t.t. ríkjandi vindátta þar sem mengunin frá kísilveri Stakksberg mun megnið af tímanum liggja yfir íbúabyggð nyrst í Reykjanesbæ. Ég held að menn ættu bara að halda þessum kísilverum úti þar sem reynslan er til staðar og e.t.v. gæti Stakksberg skoðað fjárfestingar í kísilverum t.d. í Noregi til að vinna upp í tapið vegna United Silicon. Það er (leyfi ég mér að fullyrða) meirihluti íbúa Reykjanesbæjar fyrir því að kísilver Stakksberg fari ekki í gang aftur eftir endurbætur.

 

3: Hér setjið þið fram klukkustundargildi á So2 og No2. Allt á þetta nú að vera innan heilsuverndarmarka reglugerða sem eiga að tryggja heilsu manna til lengri tíma. Þetta sagði nú United Silicon líka en það stóðst engan veginn. Hér er nær eingöngu fjallað um framangreind tvö efni en eins og vitað er eru fjölmörg önnur eiturefni sem verksmiðjan losar og gera mætti mun ítarlegri grein fyrir þeim efnum. Eins er framsetning á klukkustundargildum ófullnægjandi þar sem íbúar eiga rétt á að sjá þetta einnig í stærra samhengi, þ.e. sólarhrings-, viku-, mánaðar- og ársgildum.

 

4: Ég velti fyrir mér hvernig þessi skorsteinn hjá ykkur eigi eftir að virka þegar vandamálið tengist væntanlega síupokum o.fl.? Reykurinn hjá United Silicon lak meðfram öllum götum á ofnhúsinu, var hleypt út um hurðir og sama sagan virðist eiga sér stað hjá PCC á Bakka. Ég er því langt frá því eins sannfærður og þið að skorsteinninn eigi eftir að taka allt eitrið og dreifa því með þeim hætti sem þið hafið haldið fram í „Áhrif endurbóta á dreifingu útblásturs“.

 

Það er ekki of seint að hætta við núna og ég hvet ykkur eindregið til þess. Reykjanesbær á ekki að verða frægastur sveitarfélaga á norðurhveli jarðar fyrir að menga mest og stefna ætti að grænni framtíð þar sem umhverfissjónarmið eru í forgrunni. Ég kýs góð lífsgæði til handa íbúum Reykjanesbæjar og komandi kynslóðum sem endurspeglast í betri lífsgæðum framyfir ófullkomnar kolabrennandi kísilverksmiðjur í kílómetra fjarlægð frá byggð. 


21-09-2019 07:48

Jóhanna P Björgvinsdóttir

Þið peninga menn hafið ekki hugmynd og komið ekki til með að fá, hvað áhrif meingunn frá kísilverksmiðjunni á eftir að hafa á fólk. Alveg sama hvað stromparnir verða háir og þið reynið að telja fólki trú um heilnæmi úrninslu kílils. Kísill er baneitraður frá upphafi til enda hvernig sem litið er á hann. Þannti að ég er þeirra skoðunnar að ykkur er alveg sama hvernig við komum til með að hafa það bara á meðan ykkur auðnist að raka saman fé og eitthvað hlýtur það að verða fyrst það er farið í sýndar samráð til að reyna að hafa vaðið fyrir neðan sig um að þetta hafi verið leyft og að það sé búið að svara öllum spurningum sem komu. Þá er bara allt í lagi!


19-09-2019 22:44

Sigurður T Garðarsson

Alvarlegastu og áhrifamestu afleyðingar fyrir íbúa Reykjanesbæjar af starfsemi kísilvers Stakksbergs í Helguvík verður 100 þúsund tonna kolabrennslan og  eituráhrifin af þeim frá verksmiðjunni. Í samráðsgáttinni er fjallað um Áhrif á heilsu og Áhrif endurbóta á dreifingu útblásturs í sitt hvoru lagi, en hvort tveggja fjallar um eitrið sem kemur frá kísilverinu.  Stakksberg eða einhver af neðangreindum aðilum þarf að svara því, áður en starfræksla kísilversins hefst að nýju, hver eða hverjir munu bera ábyrgð á afleiðingunum ef eituráhrifin verða meiri og verri en öll reiknilíkönin og mengunarvarnirnar í umhverfismatinu gera ráð fyrir.  Mun Arion banki axla ábyrgð, Verkís, Vatnaskil, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun eða Reykjanesbær? Verða einhverjir einstaklingar dregnir til ábyrgðar? Bæjarbúar þurfa í raun að fá svar frá Stakksbergi eða frá hverjum og einum ofangreindra aðila um hvar þeirra ábyrgð liggur. Einnig þarf að upplýsa um hvort hér geti verið um saknæmt athæfi að ræða, ef eituráhrif umhverfismatsins er rangt.


14-09-2019 13:24

Stefanía Ágústa Pálsdóttir

Sem íbúi í Keflavík kæri ég og mín fjölskylda ekki um að slík mengunarstarfemi sé á lóðarmörkunum! Með nýfætt barn árið 2017 var ekki hægt að fara út úr húsi í ákveðnum vindáttum. Hræðileg staðsetning. Gríðarleg sjónmengun. Þetta er ekki boðlegt fyrir íbúa.

Ég tek undir allt sem aðrir hafa sagt.

Best er að gleyma þessu og jafna þetta við jörðu og einbeita sér að einhverju sem er gagnlegra og jákvæðara fyrir umhverfið okkar allra!


13-09-2019 22:18

Rannveig Lilja Garðarsdóttir

Ég geri athugasemd við staðsetningu þessarar verksmiðju vegna óþæginda í öndunarfærum á meðan hún var starfrækt og einnig geri athugasemd egna staðsetningar og ég tel að verksmiðjan sé of nálægt byggð


13-09-2019 10:05

Hrönn Auður Gestsdóttir

Undirrituð sendir eftirfarandi athugasemdir sem sendir eru í eftirfarandi þætti:

 

 

1.      1.      Áhrif endurbóta á dreifingu útblásturs

2.      2.       Áhrif á heilsu

 

Þetta orðalag ætti frekar að vera svona:

1.     1.       Tilvonandi mengun í bakgarðinum hjá íbúum Reykjanesbæjar

2.     2.      Skert lífsgæði fyrir menn og dýr

 

 

Lönguvitleysan og skrípaleikurinn heldur áfram gagnvart þessari verksmiðju og eru íbúar beðnir um að senda inn sínar athugasemdir sem ég geri hér með.

 

Öll fyrirheit og fegurðarmyndir sem hafa verið settar fram sl. ár og hefur allt verið svikið og það virðist vera nóg með einu pennastriki að fá útlit bygginga breytt án þess að íbúar fái nokkuð að segja um það mál.

 

Nú á að redda málunum með því að setja 52 metra háan stromp á þessa byggingu sem er þegar mikið lýti í umhverfi Helguvíkur og nágrennis.

 

Það er engin trygging fyrir því að þetta á að vera betra og ég er ekki tilbúin að fórna heilsu minni, fjölskyldu minnar og hrossunum mínum til að vera tilraunardýr fyrir stóriðju í bakgarðinum hjá mér. Held að sú tilraunarstarfsemi hafi toppað sig með öllum mistökum, lygum, slysum og lífskerðingu sem dundu yfir okkur íbúa sl. ár.

 

Staðsetningar á þessum tveimur verksmiðjum sem ætlaðar eru hér í Helguvík sem er rétt um kílómeter í fjarlægð frá íbúabyggð og hesthúsabyggð er allt of nálægt. Mengunin frá henni berst með ríkjandi vindáttum (norðanátt, norðaustanátt og norðnorð austanátt) er algjörlega óviðunandi og gengur ekki upp. Ef ég fann lyktina sem var ríkjandi reglulega hjá United Silicon og andaði því að mér, þá mun ég líka anda að mér lyktalausri mengun sem fyrirhuguð er.

 

Það er talað um að Ísland eigi að taka þátt í Parísarsamningum varðandi loftlagsbreytinga í heiminum, ég tel klárlega að svona starfssemi sé einn af sökudólgum hvernig er að fara fyrir jörðinni okkar.

 

Þann 16. nóvember 2016 skrifaði Reykjanesbær undir samning Heilsueflingu til að stuðla að betri heilsu fyrir íbúa Reykjanesbæjar og þar má sjá eftirfarandi:

 " Heilsuefling, eins og orðið ber með sér, gengur út á það að efla almenna heilsu íbúa með því að fyrirbyggja sjúkdóma, stuðla að forvörnum og veita stuðning til lífstílsbreytinga. Heilsuefling tekur meðal annars til félagslegra, andlegra og umhverfislegra áhrifaþátta heilbrigðis og fólki gert kleyft að hafa aukin áhrif á heilsu sína til góðs"

 

Það má líka benda á að Arion banki stærir sig af samningi bindingu þeirra kolefnislosunar sem hlýst af stafsemi bankans !!  Þetta kísilver í eigu Arion banka mun brenna 120.000 tonnum af kolum árlega í fullum afköstum. 

Framkoma ykkar gagnvart Reykjanesbæ, ýmsum fyrirtækjum, fyrrverandi starfsmönnum United Silicon er sorgleg, vitandi að því að þið hlunnfærðu þessa aðila um tugi milljóna. Þetta eru viðskiptahættir og framkoma ykkar og þið reynið að telja okkur um trú að treysta ykkur ?

 

Það eru stórar yfirlýsingar að þið ætlið að gera betur en fyrri eigendur og ætlið ykkur ekki að vinna þetta umhverfismat með „rassgatinu“ eins og formaður Stakkbergs kom að orði á kynningarfundi 21.nóvember 2018 en það umhverfismat var samþykkt af Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun.

 

Reiðin og sorgin landans gagnvart Lífeyrissjóðum sem gerðust það djarfir að fjárfesta í þessum ófögnuði á sínum tíma með peningunum okkar í starfsemi hjá manni sem var ekki öflugur pappír.

 

Gerið okkur íbúum Reykjanesbæjar greiða með því að fjarlægja þessa verksmiðju úr bænum okkar, það verður aldrei sátt við íbúa með þennan rekstur.

 

Ég segi í burtu með þessa verksmiðju !!

 

Hrönn Auður Gestsdóttir

Íbúi í Reykjanesbæ

 

 


12-09-2019 10:52

Stefán Helgi Kristinsson

Það er nokkuð ljóst að eftirlit og framfylgni á reglum er ósaman að jafna í þessum tveimur löndum og því ber að taka öllum slíkum samanburði með varfærni.  Það varð fljótlega ljóst á sínum tíma að Umhverfisstofnun hafði lítin sem engan áhuga á að sinna sínu verkefni og það var ekki fyrr en eftir mikla baráttu íbúa sem sú stofnun rumskaði og fór að gera eitthvað.  Mælingar virðast hafa verið frekar mikið djók og vantaði bæði fleiri mæla sem og hefði þurft ítarlegri mælingu áður en verksmiðjan fór í gang til að vera með góðan viðmiðunargrunn,  þær mælingar hefðu þurft að ná yfir 6-12 mánuði svo vel hefði átt að vera og eitthvað mark takandi á.

Ég leyfi mér svo að efast um að forsvarsmenn fyrirtækja í Noregi leyfi sér að koma með hrokafull og uppskálduð svör eins og forsvarsmenn US leyfðu sér á sínum tíma,  en það er nú heldur ekki líklegt að norsk fyrirtæki skáldi upp umhverfismat eins og gert var fyrir US.

Það er svo einnig ljóst að þótt flestir hafi ef til vill ekki fundið fyrir einkennum á sínum tíma að þá er fólk sem er viðkvæmara fyrir mengun oft eins og kanarífuglinn í kolanámunni og getur þannig varað okkur hin við að þessi mengun sem óneitanlega var til staðar gæti vel haft langtímaáhrif á okkur sem erum það heppin að vera með góða heilsu - ennþá!

Íbúar í Reykjanesbæ (og reyndar velflestir íslendingar) treysta ekki eftirlitsstofnunum né fyrirtækjum til þess að hafa eftirlit og gefa almenningi réttar upplýsingar.  Reynslan hefur sýnt það að það vantraust er ekki að ástæðulausu.


12-09-2019 00:48

Margrét Sturlaugsdóttir

Langar að benda á að þó einkenni hafi komið fram hjá fólki og það ekki leitað læknis þá í mörgum tilfellum gerðu einstaklingar sér ekki grein fyrir að þarna væri tenging fyrr en eftir á og þá ekki beint hægt að fá staðfestingu frá læknum eða bara skoðun. Það tekur oftast amk 3 vikur að fá tíma hjá lækni hér á bæ. Mér er minnistætt að sumarið 2017 í júlí í kringum 10 þess mánaðar þá eins og oft á sumrin voru flest allir gluggar opnir yfir nóttina í svefnherbergjum hér, þegar heimilisfólk vaknaði þá voru allir með kverkaskít og eins og flensa hefði hellst í alla um nóttina. Ég skildi þetta ekki vegna þess að það var hásumar og óvanalegur tími fyrir kvefpest en svo kom í ljós að það hafði kviknað í kísilverinu um þessa nótt. Ég leitaði ekki til læknis vegna þess að ég fattaði ekki tenginuna fyrr en seinna og maður mætir ekki á bráðamóttöku með kverkaskít og slappleika og eins og áður hefur verið nefnt þá tekur uþb 3 vikur að fá tíma hjá lækni en það er ekki Kísilverinu að kenna. Vegna minnar reynslu hef ég engan áhuga að þetta fari aftur í gang.


11-09-2019 17:35

Rúnar Fossádal Árnason

Það er ljóst að uppbygging þessa kísilvers samræmist ekki markmiðum Reykjanesbæjar heilsueflandi samfélag og því mjög taktlaust að stíga þessi skerf.

Það er öllum ljóst að mikill vafi ríkir á heilnæmi þessarar verksmiðju og ef það er vafi það skal ekki bjóða bæjarbúum eða íslensku þjóðinni upp á.

Hönnun og ófrínilegt útlit kísilversins undirstrikar óheilnæmt ber ekkert annað með sér en að þarna er mengandi skrímsli í burðarliðnum. Skrímsli sem þarf gríðarlega háan turn til viðbótar.  Turn sem forsvarsmenn kísilversins í raun vonast að dugi til spúa mengandi efnum fram hjá bænum og á einhverja aðra í nágrenni við okkur.. Enn og aftur er verið að ræða efni sem eru vanrannsökuð sem skapa ótta og vafa um mengandi efni sem EKKI eiga samleið með bæjarbúum, nágrannabænum eða Íslendingum nær og fjær. Vafi er ekki í boði fyrir okkur í Reykjanesbæ.

Rúnar Árnason


11-09-2019 15:25

Margrét Sigrún Þórólfsdóttir

Við erum að byggja upp heilsueflandi samfélag hér í Reykjanesbæ þar á enginn mengandi efni samleið með bæjarbúum. Síðan er ekki búið að rannsaka nóg Díoxin efni sem hugsanlega koma frá verksmiðjunni svo og önnur rok og ætandi efnasambönd. Þessi efni eru skaðleg heilsunni. Þannig að heilsa íbúa á alltaf að njóta vafans.


11-09-2019 13:54

Ólöf Jónsdóttir

Stakksberg tók þá ákvörðun að framkvæma nýtt umhverfismat á starfsemi kísilverksmiðju í Helguvík sem mikill meirihluti íbúa Reykjanesbæjar eru á móti. Stakksberg virðist það engu máli skipta og heldur áfram sínu óskiljanlega striki. Komi til íbúakosninga er ég þess fullviss að niðurstöður þeirra leiði í ljós að betur hefði verið heima setið en af stað farið hjá Stakksbergi í endurbætur á kísilveri sem er eins illa staðsett og hugsast getur gagnvart íbúabyggð Reykjanesbæjar. Loftslagsmál, kolefnisjöfnun og minnkun kolefnisfótspora virðist ekki skipta Stakksberg neinu máli né heilsa og lífsgæði íbúa Reykjanesbæjar.
Í tillögu að matsáætlun og endanlegri matsáætlun Stakksbergs er vísað í matsáætlun Stakksbrautar 9 en við lestur þeirrar áætlunar og þeirra gagna sem Stakksberg og Verkís hafa nú lagt fram er ekki laust við að samhengi hlutanna liggi í lausu lofti. Það hjálpar ekki við mat á trúverðugleika og trausti til matsferlisins í heild þegar Stakksberg nýtir sér að hluta gögn með rýrðan trúverðugleika. Hver er trúverðugleiki gagna Stakksbergs sem byggir á slíkum gögnum? Sé það vilji Stakksberg að nýta sér gögn Stakksbrautar 9 þurfa þeir að fara í algjöran samanburð á þeim gögnum og útskýra með nákvæmum hætti öll frávik.
Hér er talað um að reisa eigi 52 metra háan skorstein við hlið síuhúss. Bæjarmyndin laskaðist verulega við byggingu kísilvers Stakksbergs og þegar skorsteinninn verður kominn verður varla hægt að tala um fallega bæjarmynd. Fjarskiptamastur eru oft 30 metra há og hér í heiðinni er eitt slíkt. Skorsteinninn hjá Stakksbergi yrði 22 metrum hærri en það mastur. Stakksberg virðist ekki gera sér grein fyrir því að ríkjandi vindáttir eru norðanáttir og í slíkum vindáttum þá liggur mengunin frá verksmiðju þeirra yfir byggð Reykjanesbæjar. Íbúar Reykjanesbæjar kæra sig flestir ekki um þessa mengun. Síldarbræðslurnar víða um land reyndu á sínum tíma að draga úr lyktarmengun með því að reisa háa strompa fyrir útblástur en allt kom fyrir ekki og peningalyktin var umliggjandi verksmiðjurnar. Bíði sömu örlög Stakksbergi munu þeir að öllum líkindum viðhalda gjaldþrotalyktinni sem barst frá United Silicon 2016-2017 þrátt fyrir 52 metra háan skorsteininn og tæpa 5 milljarða af ferskum peningum.
Ég dreg umfjöllun hér í algjöran efa þar sem Stakksberg mun nýta sér gögn Stakksbrautar 9 án þess að fara í algjöran samanburð á þeim gögnum og útskýra öll frávik. Það er alveg ljóst að hæsti reiknaði styrkur um núverandi rjáfur er í engu samræmi við það sem kom fram í gögnum Stakksbrautar og var undanfari útgáfu starfsleyfis sem Stakksberg hefur fengið framselt til sín. Eins er framsetning mengunarefna mjög villandi hér þegar Stakksberg miðar bara við framleiðslu á einu tonni og miðar bara við einn ofn. Það hlýtur að vera hægt að setja þetta fram meira í takt við raunveruleikann. Eins dreg ég útreikning Vatnaskila í efa þar sem loftdreifingarlíkan sem þeir vinna fyrir Stakksberg byggir ekki á neinni reynslu starfandi stóriðja heldur eingöngu fyrirhugðu álveri Norðuráls í Helguvík og fyrirhugðu kísilveri Thorsil sem engin starfsreynsla er af. Stakksberg líkt og forveri þess ætlar því í enn eina tilraunstarfsemina hvað þetta varðar. Ég get a.m.k. staðfest það að þegar það voru norðanáttir þá fann ég verulega fyrir menguninni frá kísilveri Stakksbergs 2016-2017.
Hér er settur stór fyrirvari á dreifingu VOC (lyktarvaldandi efnum), þ.e. eingöngu er „búist við að minnkaðar líkur séu á því að lykt finnist með tilkomu endurbótanna en þar sem ekki liggja fyrir greiningarmörk lyktar vegna TVOC efna er ekki hægt að fullyrða að lykt hverfi með öllu“. ER ÞAÐ NÓGU GOTT? Borgar sig að setja tæpa 5 milljarða króna í endurbætur á kísilveri sem virkaði ekki sem mun síðan valda íbúum Reykjanesbæjar sömu vanlíðan vegna lyktarmengunar og annarrar mengunar áfram? Það sama á við hér eins og athugasemdin hér að ofan um að það hlýtur að vera hægt að setja þetta fram meira í takt við raunveruleikann og rétt væri að sýna þetta í stærra samhengi en í hlutfallsmörkum klukkustundargilda.
Það er ekki of seint að hætta við núna og ég hvet ykkur eindregið til þess. Reykjanesbær á ekki að verða frægastur sveitarfélaga á norðurhveli jarðar fyrir að menga mest og stefna ætti að grænni framtíð þar sem umhverfissjónarmið eru í forgrunni. Ég kýs góð lífsgæði til handa íbúum Reykjanesbæjar og komandi kynslóðum sem endurspeglast í betri lífsgæðum framyfir ófullkomnar kolabrennandi kísilverksmiðjur í kílómetra fjarlægð frá byggð.

11-09-2019 13:24

Atli Gylfason

Ég hef staðið frammi fyrir því undanfarin 7 ár að lifa með skerta heilsa. Heilsa sem ég þarf að hafa mikið fyrir að versni ekki of mikið. Það hefur gengið vel hingað til en því miður ekki sjálfgefið með þann sjúkdóm sem ég er að kljást við. Sá tími sem ferlíkið þarna út í Helguvík starfaði var mér skelfilegur. Allt það sem tekið er fram í fyrri umkvörtunum var ég að kljást við meira til. Ég hef nú ekki í hyggju að fara að telja upp hérna en langar að koma því frá mér hversu mikil fyrra mér finnst það vera að fara að ræsa þetta upp aftur. Það að halda því fram að hægt sé draga það mikið úr mengun frá þessu að það verði nú innan marka.   Marka fyrir hvern??? ekki er greinilega hugsað til okkar sem býr við hliðina á þessu. Ég á 4 börn, konu og hunda... 

hvað sem því líður þá ætla ég ekki að fara út í eitthvað skítkast þó mér finnist það vel við hæfi. Ég vill ekki sjá þetta fara aftur í gang. Heilsu minnar, fjölskyldu minnar og annarra vegna!

Atli, íbúi í Keflavík 


11-09-2019 12:34

Albert Svan Sigurðsson

Þessar fallegu myndir sýna okkur hvernig Stakksberg í boði Arion banka hefur áhuga á að rýra loftgæði í Reykjanesbæ næstu árin. Jafnvel þó mæld mengun verði innan reglugerðarmarka eru það samt verri loftgæði en nú er.

Ofan á þessa reglulegu loftmengun bætast síðan óregluleg losun mengunarefna þegar slökkt er á ofnum, ofnar endurræstir, neyðarlokur opnaðar og mistök gerð. Slík óregluleg losun er fylgifiskur grófhreinsunar kísils. En við slíkar aðstæður mun enn meira magn eitur- og mengunarefna dreifast yfir íbúabyggðina.

Þetta er ekki ásættanleg fyrirætlun og þar að auki eru augljóslega fleiri mengunarefni sem berast frá kolabrennslunni og viðar-kurlinu heldur en efnin sem reglugerðir ná yfir. Það sýnir reynsla bæjarbúa sem urðu fyrir heilsufarsáhrifum árið 2018.

Loforð um hærri skorstein er í raun loforð um að dreifa mengunarefnunum yfir meira svæði, þannig að í blíðvirði og norðanátt, þegar íbúarnir njóta þess mest að vera úti við, munu efnin berast lengra inn í Reykjanesbæ og valda fleiri íbúum tjóni.

Fyrir utan loftmengunina sem hefur bein áhrif á heilsufar og lífsgæði íbúa Reykjanesbæjar mun verksmiðjan auka útblásturs gróðurhúsalofttegunda gífurlega á sama tíma og stjórnvöld vilja uppfylla Parísarsamkomulagið um loftslagsvernd og minnka losunina. Þetta mun verða svartur blettur í orðspori Reykjanesbæjar sem vistvæns samfélags.

Við sem búum í Reykjanesbæ munum aldrei sætta okkur við þessa kolabrennslu-verksmiðju þar sem hún mun rýra lífsgæði bæjarbúa og gengur þvert á samfélagsleg viðmið. Það verður því barist gegn þessari verksmiðju og fjárfestunum sem að henni standa með öllum ráðum þar til yfir lýkur.11-09-2019 10:50

Þóra Sigrún Hjaltadóttir

hef miklar áhyggjur af þessu vegna eigin heilsu og heilsu annarra íbúa

ég verð að segja að lyktin sjálf truflaði mig ekki, þar sem mér þótti þetta nú minna á lykt úr arineldi

hins vegar í hvert sinn sem lyktarmengunin var yfir bænum, fann ég fyrir öndunarerfiðleikum (við innöndun) og nei, það er ekki eitthvað sem maður hleypur niður á heilsugæslu til að tilkynna í hvert sinn, en það er klárlega eitthvað sem ég mun gera í framtíðinn ef af þessu verður og ég finn einkenni, þar sem því var beytt að ekki hefðu nægilega margir tilkynnt til heilsugæslunnar.

og ég tek undir allar þær athugasemdir sem komið hafa fram og hvet til þess að þessi verksmiðja verði jöfnuð við jörðu


11-09-2019 09:29

Ólafur Róbert Rafnsson

Hef af því miklar áhyggjur að verksmiðja eins og þessi hafi veruleg neikvæð áhrif á útivistarsvæði hestamanna og golfiðkenda.

Þetta svæði hefur mjög marga góða kosti fyrir íbúa á suðurnesjum, sem er í algjöru uppnámi vegna þessara framkvæmda.

Þá er mikið beitiland þar sem hrossum er beitt sem að öllum líkindum myndi spillast verulega og hætta þyrfti að nota svæðið með þeim hætti.

Að mínu mati er það með ólíkindum að þessi kostur sé yfirleitt á dagskrá og hvet alla hluteigandi aðila til að finna leiðir til að koma þeim verðmætum sem þarna eru í verð og leita leiða með sveitarfélaginu til að draga úr tjóni. 
Stakksberg – stakksberg@stakksberg.is