Samráðsgátt Stakksbergs

Ásýnd kísilverksmiðju í Helguvík

Samráði lokið
04-07-2019 04:57 - 24-09-2019 23:59

Áhrif framkvæmda á ásýnd er einn af þeim umhverfisþáttum sem fjallað er um í mati á umhverfisáhrifum, en sjónræn áhrif eru breytingar á hinu sjónræna umhverfi og viðbrögð fólks við breytingunum. Áhrif nýrra mannvirkja á svipmót lands geta verið töluverðar og umdeildar, sérstaklega þegar um er að ræða stór mannvirki. Nýjar framkvæmdir breyta ásýnd lands og hafa áhrif á upplifun fólks. Viðbrögð manna geta verið mjög ólík, allt frá því að þykja framkvæmdin lýti á landinu yfir í að þykja þau jákvæð breyting.

Í mati á umhverfisáhrifum kísilverksmiðju Stakksberg verður lagt mat á áhrif hennar á ásýnd lands. Stuðst er við leiðbeiningar frá ensku samtökunum The Landscape Institute.  Valin eru ákveðin sjónarhorn út frá tilteknum forsendum, og áhrif breytinganna metin með því að setja fyrirhuguð mannvirki inn á samsettar ljósmyndir sem eru svo bornar saman við ljósmynd án mannvirkja. Leiðbeiningarnar fjalla einnig um gerð myndavélar og linsu, uppstillingu á myndavél og stillingar hennar auk fleiri þátta. Leiðbeiningarnar gera ráð fyrir að myndir skuli teknar á í góðu skyggni og að þær sýni tæplega 60° lárétt sjónsvið til að sýna nægilega mikið af landslaginu í kringum mannvirkin og setja þau í samhengi við umhverfi sitt.

Við val á sjónarhornum er horft til þess hvaðan kísilverksmiðjan sést og hvaða ólíku hópar fólks sjá til mannvirkjanna. Í því skyni var gerð sýnileikagreining í landlíkani sem leiðir í ljós út frá fjarlægð og landslagi hvaðan mannvirkin geta mögulega sést. Sú greining nýttist til að velja sjónarhorn en einnig var lögð áhersla á að taka myndir frá þeim stöðum þar sem flestir eiga leið um, þ.e. vegum og gönguleiðum, íbúðarsvæðum og opinberum stöðum.


Í frummatsskýrslu verða metin sjónræn áhrif núverandi mannvirkja kísilverksmiðjunnar, en þau eru ekki í samræmi við fyrra umhverfismat, og svo fullbyggðrar verksmiðju Stakkbergs. Þar er miðað við að reistir verða tveir skorsteinar og að allur útblástur frá ofnum fari í gegnum síuvirki og þaðan upp í skorsteina. Einnig verða metin sjónræn áhrif fullbyggðrar kísilverksmiðju með öðrum áformuðum verksmiðjum á iðnaðarsvæðinu við Helguvík (álver Norðuráls og kísilverksmiðja Thorsil) og fullbyggðu iðnaðarsvæði samkvæmt fyrirliggjandi deiliskipulagi.


Mannvirki fullbyggðrar kísilverksmiðju Stakksbergs og tilgáta um fullbyggt iðnaðarsvæði við Helguvík.

Í frummatsskýrslu verða ásýndarbreytingar sýndar á samsettum ljósmyndum þar sem tölvulíkan af fyrirhuguðum mannvirkjum er sett inn á ljósmyndir. Fyrirhuguð mannvirki voru teiknuð í þrívídd og komið fyrir í landlíkani til að gefa rétta mynd af afstöðu og hlutföllum mannvirkja frá mismunandi sjónarhornum. Taka verður fram að þessar tölvugerðu myndir eru tillögur að því hvernig mannvirki koma til með að líta út í landslaginu.

Hafa þarf í huga að tvívíðar ljósmyndir og samsettar myndir eru aldrei nákvæmlega eins og raunveruleikinn þar sem ekki er hægt að eða sýna fullkomlega á mynd þann margbreytileika og fjölbreytni sem áhorfandi upplifir með eigin augum.  Slíkar myndir eru því einungis nálgun á það hvernig fyrirhuguð mannvirki koma til með að líta út en eru upplýsandi fyrir alla aðila við undirbúning framkvæmda.

Í frummatsskýrslu verða birtar þrjár ljósmyndir frá hverju sjónarhorni, sbr. kortið að ofan:

  • Ásýnd lands eins og hún er í dag með núverandi mannvirkjum.
  • Samsett mynd sem sýnir áætlaða ásýnd með fullbyggðri verksmiðju Stakksbergs.
  • Samsett mynd sem sýnir tilgátu um fullbyggt iðnaðarsvæðið í Helguvík.

Myndirnar eru settar upp með stiku þannig að hægt er að færa stikuna til og sjá breytingarnar. Hægt er að bera saman núverandi ástand og áætlaða ásýnd með fullbyggðri verksmiðju annars vegar og hins vegar fullbyggða verksmiðju og tilgátu um fullbyggt iðnaðarsvæði í Helguvík.

Myndir af því hvernig fullbyggt iðnaðarsvæðið í Helguvík kemur hugsanlega til með að líta út eru gerðar til að sýna samlegðaráhrif með annarri fyrirhugaðri uppbyggingu á svæðinu. Við gerð þrívíddarlíkans af þeim mannvirkjum var byggt á deiliskipulagi iðnaðarsvæðisins og eru byggingar vel innan byggingarreita og undir hæðarskilmálum skipulagsins. Þannig er leitast við að sýna minna umfang uppbyggingar en skilmálar skipulagsins leyfa. Stærðir bygginga  kísilverksmiðju Thorsil og álvers Norðuráls eru fengnar úr matsskýrslum þeirra verkefna.

Ljósmyndir frá nokkrum sjónarhornum

Hér fyrir neðan má sjá ljósmyndir frá nokkrum sjónarhornum til að meta áhrif á ásýnd. Frá hverju sjónarhorni er annars vegar sýnd núverandi ásýnd að iðnaðarsvæðinu í Helguvík og með fyrirhuguðum mannvirkjum fullbyggðar verksmiðju Stakksbergs og hinsvegar ásýnd fullbyggðar verksmiðju og tilgátu að fullbyggðu iðnaðarsvæði.