Samráðsgátt Stakksbergs


Á fyrri rekstrartíma kísilverksmiðjunnar í Helguvík komu fram margar kvartanir frá íbúum á nærliggjandi svæðum vegna lyktar og óþæginda, s.s ertingar í augum og öndunarfærum. Kvartanir komu aðallega fram þegar ofn verksmiðjunnar var rekinn á skertu álagi en vegna ýmissa vandamála sem upp komu í rekstrinum á þeim tíma voru þessi tilvik nokkuð tíð. Við vinnslu frummatsskýrslu hefur Stakksberg aflað upplýsinga um starfsemi sambærilegra verksmiðja í Noregi auk þess bera saman mælingar í mælistöðvum á styrk mengunarefna við heilsuverndarmörk. Þá hafa áhrif endurbóta á loftdreifingu verið metin.

Umhverfisstofnun hefur sett það skilyrði fyrir endurræsingu kísilverksmiðju Stakksberg í Helguvík að uppsetning skorsteins sem getur dregið úr styrk lyktarvaldandi efna í nærliggjandi íbúabyggð verði útfærð og framkvæmd áður en hún verði heimiluð. Stakksberg hefur látið hanna og útfæra endurbætur á útblástursmannvirkjum og skorsteini. Stakksberg leitaði til ráðgjafarfyritækisins Vatnaskila um að reikna áhrif endurbótanna á styrk útblástursefna með loftdreifilíkani. Gerð er hér grein fyrir helstu niðurstöðum þeirra útreikninga, einkum þeirra er varða lyktarvaldandi efni (VOC) en einnig þeirra sem tilgreind eru í reglugerðum. Skýrsla Vatnaskila um niðurstöður loftdreifilíkansins mun fylgja með frummatsskýrslu, en þar verður einnig fjallað um dreifingu útblásturs frá fullbyggðri verksmiðju.

Í frummatsskýrslu verður fjallað um niðurstöður mælinga Vinnueftirlitsins á grunnástandi og reiknilíkans af dreifingu hávaða frá verksmiðjustarfseminni. Þegar kísilverksmiðjan í Helguvík verður í rekstri mun hávaði dreifast frá starfseminni sjálfri og hafnarstarfsemi tengdri verksmiðjunni. Í Helguvíkurhöfn verður hráefni til kísilvinnslunnar landað og framleiðsluafurðir lestaðar með tilheyrandi flutningum til og frá verksmiðjunni. Í verksmiðjunni eru uppsprettur hávaða margvíslegar, en hávaði frá þessum uppsprettum varir í mislangan tíma í senn, frá nokkrum klukkustundum upp í að vera stöðugur.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun segir að í frummatsskýrslu þurfi að leggja mat á áhrif kísilverksmiðjunnar á samfélagsþætti á borð við vinnumarkað og íbúaþróun á Suðurnesjum, og að þar verði sérstaklega fjallað um fjölda og tegund starfa sem kísilverið skapar með tilliti til vinnumarkaðarins á Suðurnesjum auk áhrifa á þróun fasteignaverðs. Í frummatsskýrslu verður því litið sérstaklega til þessara þátta. Hér eru sett fram helstu gögn sem lögð verða til grundavallar mats á þessum þáttum.

Áhrif framkvæmda á ásýnd er einn af þeim umhverfisþáttum sem fjallað er um í mati á umhverfisáhrifum, en sjónræn áhrif eru breytingar á hinu sjónræna umhverfi og viðbrögð fólks við breytingunum. Áhrif nýrra mannvirkja á svipmót lands geta verið töluverðar og umdeildar, sérstaklega þegar um er að ræða stór mannvirki. Nýjar framkvæmdir breyta ásýnd lands og hafa áhrif á upplifun fólks. Í mati á umhverfisáhrifum kísilverksmiðju Stakksberg verður lagt mat á áhrif hennar á ásýnd lands. Stuðst er við leiðbeiningar frá ensku samtökunum The Landscape Institute. Valin eru ákveðin sjónarhorn út frá tilteknum forsendum, og áhrif breytinganna metin með því að setja fyrirhuguð mannvirki inn á samsettar ljósmyndir sem eru svo bornar saman við ljósmynd án mannvirkja.
Stakksberg – stakksberg@stakksberg.is