Stakksberg hefur opnað sérstakan kynningarvef þar sem gerð er grein fyrir helstu atriðum frummatsskýrslunnar. Á vefnum er kynning á efni frummatsskýrslu auk þess sem gefst almenningi kostur á að bera fram spurningar til framkvæmdaraðila.
Smellið hér til að fara inn á kynningarvef.
Frummatsskýrsla mats á umhverfisáhrifum endurbóta á kísilverksmiðju Stakksbergs í Helguvík hefur verið birt á vef Skipulagsstofnunar og stendur kynningartími til 26. júní. Athugasemdum skal skila inn til stofnunarinnar fyrir lok kynningartímans. Stakksberg mun kynna frummatsskýrsluna á sérstöku vefsvæði, samrad.stakksberg.is, þar sem almenningi gefst kostur á að leggja fram spurningar um efni skýrslunnar og fá svör við þeim. Í frummatsskýrslunni er fjallað um umhverfisáhrif kísilverksmiðju Stakksbergs í Helguvík og áhrif endurbóta, meðal annars á ásýnd, hljóðvist, loftgæði og atvinnulíf á svæðinu.
Við hönnun endurbóta á kísilverksmiðjunni er lögð sérstök áhersla á að lágmarka lyktaráhrif enda ljóst að íbúar Reykjanesbæjar hafa af þeim miklar áhyggjur. Áhyggjurnar komu meðal annars fram í samráði sem Stakksberg hafði við almenning við vinnslu frummatsskýrslunnar.
Ráðgjafarfyrirtækið Vatnaskil hefur metið áhrif þessara breytinga á loftgæði með viðurkenndu loftdreifilíkani. Niðurstöður líkansins sýna að styrkur mengunarefna verður í lágmarki og undir öllum viðmiðunarmörkum. Að auki koma endurbæturnar til með að lágmarka lyktaráhrif. Sérstök skýrsla Vatnaskila um loftdreifingu fylgir með frummatsskýrslu sem viðauki og er öllum aðgengileg á kynningarvefnum.
Endurhönnuð verksmiðjan uppfyllir allar kröfur og skilyrði laga og reglugerða um umhverfismál. Um er að ræða tæknilegar lausnir sem unnið hefur verið að í nokkurn tíma með sérfræðingum á þessu sviði og eru í fullu samræmi við skilyrði Umhverfisstofnunar. Endurbæturnar eru í samræmi við gildandi deiliskipulag í Helguvík. Síðustu breytingar á því voru samþykktar í íbúakosningu árið 2015, þar sem meðal annars var veitt heimild fyrir 52 m háum reykháfum á lóð Stakksbergs.
Framkvæmdir vegna endurbóta á kísilverksmiðju Stakksbergs í Helguvík fela í sér 4,5-5 milljarða króna fjárfestingu. Áætlað er að framkvæmdir geti hafist á fyrsta ársfjórðungi 2021, taki um 14 mánuði og muni á því tímabili skapa 70-90 bein störf. Þegar 1. áfangi verksmiðjunnar verður kominn í rekstur er gert ráð fyrir að þar muni starfa um 80 manns. Að auki er gert ráð fyrir að vegna umsvifa verksmiðjunnar muni skapast á bilinu 120 til 160 afleidd störf, meðal annars vegna kaupa á ýmiskonar þjónustu.